Rugl dagsins
Jæja, hérna kemur hitt bloggið sem ég talaði um. Þetta eru semsagt nokkur markverð atriði sem gerst hafa í mínu lífi það sem af er árinu 2006.
1. Ég mætti í skólann 2. janúar. Misreiknaði mig svo illilega að ég mætti þegar síðasti verkefnatíminn var að klárast en ekki byrja. Fór semsagt ekkert í skólann þann daginn.
2. Á fimmtudeginum í fyrstu skólavikunni ákvað ég að skella mér á kaffihúsið. Þar reyndu við mig hvorki meira né minna en 3 strákar! (persónulegt met) 2 aðrir spurðu mig hjá hverjum ég væri í heimsókn, þeir voru ekki að trúa því að ég væri á 2 ári í lögfræðideildinni.
3. Nr. 2 fyllti mælinn, ég hætti í skólanum (reyndar var það nú aðalega vegna þess að mér finnst lögfræði frekar leiðinleg..) Ég sumsé pakkaði saman fötunum mínum og brunaði í bæinn.
4. Ég bankaði uppá hjá Sunnu og bað um að fá samastað. Ég fékk rúmpláss og lykil. Fékk meira að segja líka eigin fatahrúgu á gólfinu! Hún er staðsett milli gosmynjasafnsins, bókahillunnar og hreinu-fatahrúgunnar hennar Sunnu.
5. Í bænum hef ég gert margt. Dagskráin hefur verið eftirfarandi: Kringlan, Smáralindin, Kringlan, Smáralindin, Kringlan, Smáralindin, Aktu taktu, Smáralindin, Bíó, Kringlan, Sækja um vinnu, Bíó, Smáralindin, hitta áhugvert fólk, Kringlan, Skeifan, Smáralindin, Sækja um vinnu, Kringlan...
6. Annað sem við Sunna höfum gert er að horfa á sjónvarpið, borða nammi og spila kapal í tölvunni. Kapallinn sem er inn í dag er Spider Solitaire, ég er meira að segja farin að spreyta mig í erfiðustu útgáfunni, ég hef enn ekki unnið hana.
7. Ég áreitti Sunnu kynferðislega í svefni eina nóttina. Vaknaði við það að ég var að strjúka á henni handlegginn, var snögg að kippa að mér hendinni og snúa mér á hina hliðina. Sunnu fannst þetta sem betur fer fyndið. (Hvað mig var að dreyma á meðan þessu stóð er önnur saga.. Sunna var EKKI í draumnum). Nóttina eftir þetta sagði ég við Sunnu uppúr svefni: “Get out of here” og svo nóttina eftir það þá bætti ég við “í guðana bænum!”. Ekki amarlegt að sofa við hliðina á mér!
8. Sunna þarf ekki að hafa áhyggjur af áreiti og næturtali mikið lengur. Ég er búin að fá herbergi í Árbænum. Fínasta kjallaraherbergi með aðstöðu hjá Ómari og Siggu sem eru að fara að leigja íbúð á 1. hæðinni.
9. Um daginn frétti ég það að ég væri í Listaháskóla Íslands, ekki fylgdi sögunni hvað ég væri að læra.
10. Ég er búin að fá vinnu. Reyndar er ég samtals búin að fá 3 vinnur. Fyrst fékk ég vinnu á Skógarbæ sem er elliheimili, ég gekk þaðan út með kvíðahnút í maganum og hugsaði með mér hvað ég væri eiginlega búin að koma mér í! Sem betur fer fékk ég svo vinnu hjá Elko. Átti að byrja þar á mánudag en fór í atvinnuviðtal hjá SPRON á mánudagsmorguninn. Fékk vinnu hjá þeim og er núna gjaldkeri í Álfabakka næstu 4-6 vikurnar og svo er óráðið með rest.
Fleira var það ekki í bili...
Já þú varst sko heppin, það eru ekki allir sem fá eigin fatahrúgu á gólfinu! Og ég hefði náttúruleg getað tekið þau fríðindi af þér þegar þú áreittir mig þarna um nóttina ;p
Er það þá engin lögfræði hjá þér???