Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, eftir langa umhugsun, að ég sé frekar leiðinleg manneskja. Þessa niðurstöðu byggi ég á þeirri staðreynd að ég hef ALDREI neitt að segja! Ég hef til dæmis nagað mig í handabökin síðustu 2 sólarhringana við það að upphugsa eitthvað til að skirfa á bloggið en mér hefur hreinlega ekki dottið neitt í hug! Ýmislegt hefur nú komið uppí hugan, til dæmis þá datt mér í hug að skrifa um einstaklega skemmtilega sumarbústaðarferð sem ég fór í á föstudaginn með konunum í SPRON í Mjódd, en einhvernvegin þá bjóst ég ekki alveg við að það yrði eitthvað gaman að lesa það..
Einnig datt mér í hug að segja frá góðum bröndurum sem okkur Sunnu hefur dottið í hug, t.d. þegar ég sagði ekki skilja ákveðna manneskju sem heitir rammíslensku nafni og sunna sagði "nú, er hún útlensk?" Nú eða þegar ég sagði "nej tak, jeg er bara ad skoda" í verslun á Strikinu. En þessa brandara verður eiginlega að segja, þeir eru bara ekki jafn fyndnir í rituðu máli.
Mér flaug einnig í hug að segja frá týpum af fólki sem fer í taugarnar á mér, t.d. ákveðinni manneskju sem smjattar ferlega mikið, fólki sem er tilætlunarsamt og fólki sem mætir 2 mínútum fyrir lokun t.d. í verslun eða banka og er að "dunda" sér. Mér fannst þetta hinsvegar svo neikvæð umræða eitthvað að ég ákvað að sleppa henni, fæ líka smá samviskubit yfir því að segja frá svona fólki því ég er alltaf með einhvern ákveðinn í huga sem á svo sannarlega ekki skilið að vera úthúðað á bloggsíðum, jafnvel þó að engin nöfn séu nefnd!
Að lokum þá datt mér í hug að skrifa um mig, þ.e. ég um mig frá mér til mín! Hefði til dæmis getað sagt frá því að ÉG er hætt í mjódd og farin að vinna í Ármúlanum en verð bara hérna í viku og fer svo í Spöngina. Líka að ÉG er búin að skrá MIG á annað námskeið í bootcamp, þannig að ÉG verð kannski orðin flott eftir 7 vikur. Einnig hefði ég getað skrifað um það að ÉG er algjör auli vegna þess að ÉG fór í ljós í gær og ÉG brann svo hrikalega að ÉG er á litinn eins og tómatur! Og að þetta er nú ekki gott vegna þess að ÉG er að fara á árshátíð hjá Spron á laugardaginn!
En svona er þetta nú, ekkert af þessu fannst mér nógu skemmtilegt eða áhugavert til að setja á bloggið! Ég verð sennilega bara að halda áfram að vera leiðinleg!
Skál fyrir því